From “Fjórar gerlaprufur úr framandi framúrstefnuljóðlist“, an article published in the Icelandic magazine Tímarit Mals og menningar, 2/2006

Leevi Lehto er finnskt ljóðskáld og einn þeirra sem hafa tekið leitarvélina Google í þjónustu sína. Leevi bjó til forrit sem býr til Google-collage ljóð fyrir hvern þann sem hefur döngun til að hlaða orðum inn í vélina. Hægt er að velja nokkrar stillingar, leitartungumál, tíðni línuskiptinga, hversu margar síður á að nota, hvaða orðum á að sleppa úr leitinni og hvort eigi að taka með algengustu orðin sem Google leitar almennt ekki eftir (s.s. the, a, and o.s.frv.), svo ýtir maður einfaldlega á „Get poem“ og upp á skjáinn kemur ljóðið sem maður nennti ekki að skrifa. Einnig er hægt að láta vélina troða ljóðunum inn í form eins og sonnettur og sestínur, og fleiri. Þá safnar Leevi líka ljóðum sem aðrir gera með vélinni og geymir eins konar best-of safn á vefnum hjá sér, þar sem finna má ljóð á ýmsum tungumálum og eftir bæði algerlega óþekkt skáld sem og heimsþekkt nöfn innan avant-garde ljóðaheimsins.

Líkt og Kenneth Goldsmith hefur Leevi Lehto þurft að koma sér upp algerlega nýjum hæfileikum sem hingað til hafa haft lítið með ljóðlist að gera. Leevi Lehto hefur neyðst til þess að læra forritunarmál, og ljóðlist hans – að svo miklu leyti sem viðkemur Google-vélinni – lýsir sér ekki eingöngu í sýnilegri textasmíði. Tungumál ljóðsins er forritunarmál sem lesandinn sér aldrei. Einungis niðurstaðan, one-size-fits-all ljóðið sem kemur út um óæðri enda vélarinnar er sýnilegt lesandanum.

Í hefðbundnu bókmenntaverki ferðast texti frá höfundi til verks og þaðan til lesanda, sem svo túlkar verkið eftir sínu höfði. Við „lestur“ Google-ljóðavélarinnar er upprunalega verkið ólæsilegt flestum, en túlkun þess, sjálft viðmótið er túlkað af lesanda sem bætir við hugsunum sínum með því að fyrirskipa leitarorð sem svo búa til ljóð sem er ekki beinlínis hægt að segja að sé eftir þann sem setti inn leitarorðin þó hann eigi vissulega hluta af forsendunum sem bjuggu það til. Túlkunarferlið verður því flóknara og hlutur lesandans, þess sem túlkar, er áhrifaríkari og eignarhald hans þar af leiðandi meira; hlutdeild hans í upplifun verksins verður meiri. Nú ber þess auðvitað að geta að við lestur hefðbundnari ljóða, sérílagi módernískra texta og tilraunatexta, er hlutdeild lesandans auðvitað líka töluverð. Lesandanum er gert að túlka hvað nákvæmlega það er sem gerir tímann eins og vatnið, eða mannshöfuð þungt, og slíkar túlkanir geta í mörgum tilvikum verið æði misjafnar frá manni til manns.

Einhver sagði að það væri sama hvert maður færi maður tæki alltaf rassgatið á sér með, og rétt eins og maður hlýtur að máta rassgatið á sér við hin þungu mannshöfuð módernismans er líklegt að ólíkir notendur máti sig á ólíkan máta við Google-ljóðavélina, mati hana á ólíkum hugsunum líkt og þeir hafa áður matað ljóð af hugsunum sínum. En Google-ljóðavélinni líkur ekki þar heldur kemur annað verk á eftir sjálfu viðmótinu, sem svo aftur krefst túlkunar, krefst þess að lesandinn máti rassgatið á sér við það hreint upp á nýtt.

Sem dæmi má nefna ljóð sem Leevi Lehto gerði sjálfur, þar sem hann hefur matað vélina á hinum frægu orðum T.S. Eliots: „April is the cruelest month“, valið formið ensk sonnetta og fengið útkomuna:

in sequence for me. It’s wonderful
stirring. Dull roots with spring
is the cruelest month, not deceitful
TS Eliot once said. Eliot’s baffling

warm nights and maketh the lingering
in T-shirts, get out the bikes and in-line
All this happy crap about the coming
by Elias. April 2000 was probably one

Gamal Nkrumah. – machitodog: and one
Cruelest Month So, the first Monday
hate the month of May. It’s hot one
out of the dead land, mixing April may

T-shirts, get out the bikes and in-line
Month. by Elias. April 2000 was probably one

Vélin er svo þeim eiginleikum gædd, vegna þess að hún leitar uppi setningar með hjálp Google, að sé sömu orðum dælt í hana núna verður útkoman allt önnur enda er netið síbreytilegt og þar af leiðandi eru leitarniðurstöðurnar, efniviður ljóðanna, síbreytilegar. Þannig er eignarhald textans á floti, að hluta forritun Lehtos, að hluta orðin sem vélin er mötuð á, að hluta forritun Google-leitarvélarinnar, að hluta texti internetsins og að hluta sekúndan sem ýtt er á Get poem.